NETÖRYGGISKEPPNI ÍSLENSKRA UNGMENNA

Um keppnina

Eftir því sem heimurinn verður stafrænni verður þörfin fyrir sérfræðinga í netöryggi æ meiri. Til þess að koma til móts við skort á sérfræðingum með sérþekkingu á netöryggi hafa mörg lönd blásið til landskeppna með það að markmiði að finna efnilega nýliða og hvetja ungt fólk til að leggja netöryggi fyrir sig sem starfsferil. Netöryggiskeppni íslenskra ungmenna er einmitt slík keppni þar sem leitað er að efnilegum ungum Íslendingum sem hafa áhuga á netöryggismálum.

Netöryggiskeppni íslenskra ungmenna eða NÍU eins og hún er kölluð, skiptist í þrennt:

  1. Í fyrsta lagi er það forkeppnin sem öll íslensk ungmenni á aldrinum 14-25 ára geta tekið þátt í. Forkeppnin lýkur 15. nóvember.
  2. Að forkeppni lokinni velja dómarar úr hópi þátttakenda og bjóða þeim að taka þátt í landskeppninni sem fer fram á UTmessunni í Hörpu, 7.-8. febrúar 2020.
  3. Að lokum verður allt að tíu manna hópur valinn úr landskeppninni og fær sá hópur að taka þátt fyrir Íslands hönd í evrópsku netöryggiskeppninni sem fer fram síðla árs 2020.

Forkeppnin hefst 1. nóvember 2019 og stendur yfir í tvær vikur eða til loka dags 15. nóvember. Hægt verður að skrá sig til 13. nóvember. Niðurstöður forkeppninnar verða kynntar stuttu síðar og nöfn þeirra sem komast í landskeppnina gefin upp (ath. skilyrði er að þeir sem komast í landskeppnina hafi staðfest þátttöku). 

Í keppnunum gefst þátttakendum kostur á að leysa ýmis verkefni sem snúa að netöryggi, svo sem framkvæma skarpskyggnipróf og árásir á netþjóna svo fátt eitt sé nefnt.

Tækifærin eru mikil fyrir þátttakendur þar sem þeir sem valdir verða til að taka þátt fyrir Íslands hönd í evrópsku netöryggiskeppninni fá handleiðslu frá helstu sérfræðingum Íslands í netöryggi í þjálfunarferlinu. Að auki gefst þátttakendum dýrmætt tækifæri til að þjálfa hæfni sína og að kynnast öðru fólki með sömu áhugamál og þannig byggja upp tengslanet til framtíðar.

Netöryggiskeppnin er haldin að frumkvæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og framkvæmdin er í höndum Syndis í samstarfi við ráðuneytið og fleiri. Netöryggiskeppnin er sambærileg öðrum erlendum netöryggiskeppnum fyrir ungmenni sem hafa það að markmiði að senda lið fyrir hönd síns lands í evrópsku netöryggiskeppnina ECSC. Netöryggiskeppnin byggir þannig á formi þeirrar evrópsku.


Skráning

Forkeppni íslenskra ungmenna í netöryggi

Forkeppnin hefst 1. nóvember 2019 og stendur yfir í tvær vikur eða til loka dags 15. nóvember. Hægt verður að skrá sig til 13. nóvember. Niðurstöður forkeppninnnar verða svo kynntar stuttu síðar og gefinn upp nöfn þeirra sem komast í landskeppnina og hafa einnig staðfest þátttöku.